Innlent

SA funda um yfirlýsingu ríkisstjórnar

Vilhjálmur Egilsson er framkvæmdastjóri SA.
Vilhjálmur Egilsson er framkvæmdastjóri SA.
Stjórn Samtaka atvinnulífsins kemur saman í morgunsárið til að meta yfirlýsingu stjórnvalda sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti forystumönnum samtakanna í gærkvöldi. Það gæti því ráðist í dag hvort endanlega slitnar upp úr kjaraviðræðum eða hvort fulltrúar SA og Alþýðusambandsins setjast aftur að samningaborðinu.

Yfirlýsing sem oddvitar stjórnarflokkanna sendu fjölmiðlum í gærkvöld var stutt en þar segir að þau hafi í gærkvöldi sent ríkissáttasemjara lokaútgáfu yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við mögulega kjarasamninga til þriggja ára, milli aðila á almennum vinnumarkaði.

Yfirlýsingunni fylgdi einnig sérstök bókum um málsmeðferð vegna væntanlegs frumvarps ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Með þessu hafi ríkisstjórnin gert allt sem í hennar valdi standi til að auðvelda aðilum á almennum vinnumarkaði að ná saman um kjarasamninga til þriggja ára.

Mikið veltur á viðbrögðum Samtaka atvinnulífsins við þessu útspili ríkisstjórnarinnar. Í loftinu liggur hótun verkalýðsforystunnar um boðun verkfalls ef ekki semst á næstu dögum og verkalýðsforystan vill fyrirvara um stjórnun fiskveiða út af samningaborðinu. Að loknum stjórnarfundi SA munu forysta þess og Alþýðusambandsins koma sman til fundar hjá Ríkissáttasemjara fyrir hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×