Innlent

Ákærð fyrir að brenna Krýsuvíkurkirkju

Mynd/Stefán
Fjögur ungmenni hafa verið ákærð fyrir að brenna Krýsuvíkurkirkju til grunna aðfaranótt 2. janúar í fyrra. Kirkjan hafði verið friðuð í tuttugu ár.

Samkvæmt ákæru Ríkissaksóknara helltu ungmennin, tveir menn fæddir 1990 og tvær stúlkur fæddar 1993, bensíni yfir innviði kirkjunnar og báru eld að. Kirkjan gereyðilagðist í brunanum.

Þau eru einnig ákærð fyrir þjófnað, en í safnaðarbauknum sem þeim er gefið að sök að hafa stolið voru 4.000 krónur.

Þrjú ungmennanna mættu við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þau tóku sér öll frest til að taka afstöðu til sakarefnisins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa þau ekki játað brotin skýlaust á fyrri stigum málsins.

Krýsuvíkurkirkja var smíðuð 1857 og var ein minnsta kirkja landsins. Hún tilheyrði húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, og gerir safnið skaðabótakröfu á hendur sakborningunum upp á um 8,7 milljónir króna. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×