Innlent

Íþróttafélögin vilja meiri pening frá ríki og borg

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ingvar Sverrisson formaður ÍBR.
Ingvar Sverrisson formaður ÍBR.
Ríkisvaldið ætti að greiða þeim sem líklegir eru til að komast á Ólympíuleikana í London á næsta ári því sem nemur fullum listamannalaunum. Þetta er í það minnsta skoðun Íþróttabandalags Reykjavíkur sem lauk 45. þingi sínu í kvöld. Á þinginu var skorað á ríkisvaldið að hefja slíkan stuðning við íþróttafólk. Þá var einnig skorað á ríkisvaldið að framkvæma sem fyrst könnun á hagrænum áhrifum íþrótta.

Á þinginu var jafnframt samþykkt áskorun til borgaryfirvalda um að endurnýja samstarfssamninga við íþróttafélögin og ÍBR. Í áskoruninni kom fram að nauðsynlegt væri að tryggja rekstrargrundvöll félaganna svo þjónustunni við allan þann mikla fjölda iðkenda sem stunda íþróttir á þeirra vegum væri ekki stefnt í voða. Þá var skorað á borgina að taka án tafar upp styrki til reksturs íþróttaskóla íþróttafélaganna í yngstu bekkjum grunnskóla og stuðning við afreksíþróttir í gegnum Afreks- og styrktarsjóð Reykjavíkur.

Ingvar Sverrisson var einn í framboði til formanns Íþróttabandalagsins á þinginu og því sjálfkjörinn til áframhaldandi formennsku. Í stjórn voru kosin þau Björn Björgvinsson, sem kemur nýr inní stjórn, Gígja Gunnarsdóttir, Lilja Sigurðardóttir, Viggó H. Viggósson, Þórdís Gísladóttir og Örn Andrésson. Í varastjórn voru kjörnar þær Guðrún Ósk Jakobsdóttir og Bjarnveig Guðjónsdóttir, en Bjarnveig kemur ný inní stjórn ÍBR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×