Innlent

Kvótafrumvarpið lagt fram

Kvótafrumvarpið verður senn lagt fram í ríkisstjórn.
Kvótafrumvarpið verður senn lagt fram í ríkisstjórn.
Frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða verður lagt fyrir ríkisstjórn í dag eða strax eftir helgi í síðasta lagi. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fá ekki að sjá frumvarpið fyrr en það hefur fengið umfjöllun í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Mikil vinna hefur verið lögð í að ljúka gerð frumvarpsins síðustu daga. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa embættismenn og fáeinir stjórnarliðar setið tugi funda og embættismenn lögðu lokahönd á einstakar greinar frumvarpsins í gær.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sendu ríkissáttasemjara yfirlýsingu í gærkvöldi vegna yfirstandandi kjaraviðræðna. Yfirlýsingunni fylgdi sérstök bókun um málsmeðferð vegna frumvarpsins.

Samkvæmt heimildum segir í bókuninni að eftir að frumvarpið hefur fengið umfjöllun í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna verði það fyrst kynnt helstu hagsmunaaðilum í sjávarútvegi á lokuðum trúnaðarfundum, áður en það verður lagt fram á þingi.

Þá segir að eftir að hagfræðilegri greiningu á áhrifum fyrirhugaðra breytinga á rekstur og starfsumhverfi sjávarútvegsins er lokið muni Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið tilnefna tvo fulltrúa hvort ásamt fulltrúum stjórnarflokkanna til að vinna að frekari sátt um málið. Þeirri yfirferð á að vera lokið 8. júní.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru þessar hugmyndir um málsmeðferð metnar af forystumönnum í sjávarútvegi sem hrein sýndarmennska af hálfu ríkisstjórnarinnar og í sjálfu sér einskis virði í samhengi við gerð kjarasamninga.

Fáir þekkja efni frumvarpsins í þaula. Kerfinu verður þó örugglega skipt upp; í nýtingasamninga við útgerðina og potta til samfélagslegra verkefna. Samkvæmt heimildum er stefnt að því að pottarnir verði 15 til 20 prósent aflaheimilda að fimmtán árum liðnum og nýtingartími útgerðarinnar fimmtán til tuttugu ár. Útgerðarmenn segja að lágmarks nýtingartími í samningum verði að vera 35 ár. Framsal aflaheimilda tekur þá nær örugglega breytingum, enda sagði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til SA nýlega að forgangur núverandi kvótahafa yrði brotinn upp og komið í veg fyrir fénýtingu á sameign þjóðarinnar með leigu og sölu á aflaheimildum.

Heimildir segja að ágreiningur á stjórnarheimilinu snúist um hvort útgerðarmenn eigi að ganga að frekari nýtingarsamningum vísum eftir tuttugu ár. Eins hvaða forsendur verða hafðar til hliðsjónar við að reikna út veiðigjald og hvernig skattheimta af útgerðinni verður hugsuð. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×