Innlent

Tuttugu börn ættleidd í fyrra

Sextán börn voru ættleidd að utan í fyrra, og fjórtán hið minnsta koma til landsins á þessu ári.
Sextán börn voru ættleidd að utan í fyrra, og fjórtán hið minnsta koma til landsins á þessu ári. Mynd/Getty
Tuttugu börn voru ættleidd frumættleiðingu á Íslandi á síðasta ári. Sextán börn voru ættleidd frá öðrum löndum en fjögur innanlands. Þá voru 23 börn ættleidd stjúpættleiðingu á árinu.

Stjúpættleiðing er þegar umsækjandi ættleiðir barn eða kjörbarn maka, en frumættleiðing þegar slík tengsl eru ekki til staðar.

Þrettán börn voru ættleidd frá Kína á síðasta ári. Það er svipaður fjöldi og undanfarin ár. Þá var eitt barn ættleitt frá Taílandi, eitt barn kom frá Indlandi og eitt frá Kólumbíu. Árið 2009 voru færri börn ættleidd frá Kína, eða átta talsins. Þá komu tvö börn hingað frá Kólumbíu, eitt frá Tékklandi, fjögur frá Indlandi, eitt frá Filippseyjum og eitt frá Rússlandi.

Samkvæmt upplýsingum úr fréttablaði Íslenskrar ættleiðingar höfðu fimm börn verið ættleidd til landsins frá janúar og fram í ágúst auk þess sem foreldrum hafa borist upplýsingar um níu börn til viðbótar sem þeir munu fá að ættleiða. Því er útlit fyrir að fjöldi ættleiðinga muni að minnsta kosti ná meðaltali síðustu ára. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×