Innlent

Torgið við Hörpu hlýtur norræn arkitektaverðlaun

Mynd/Binni ljósmyndari
Torgið við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu hlaut verðlaun á Arkitekturmässan í Gautaborg sem haldin var í fyrsta skipti dagana 24. og 25. október.  Áformað er að festa hana í sessi sem stærsta norræna viðburðinn meðal arkitekta, landslagsarkitekta og skipulagsfræðinga sem haldinn verði annað hvert ár.

Torgið við Hörpu hlaut verðlaun í flokknum besta norræna almenningsrýmið. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf veitti verðlaunum viðtöku fyrir hönd hönnunarteymisins en torgið er hannað af Landslagi í samvinnu við arkítektastofuna Batteríið. Samstarfsaðilar voru Henning Larsen Architects og Ólafur Elíasson.

Lýsing höfunda á torginu:

Við hönnun svæðisins er skírskotað í sögu svæðisins frá því að vera ósnortin fjara þar sem lækurinn rann til sjávar yfir í það að vera hafnarsvæði. Spegiltjarnir skapa hólmatilfinningu inni á torginu og fjarlægð frá aðliggjandi umferðargötu. Brýrnar yfir tjarnirnar eru í minningu bryggjanna sem stungust þarna áður í sjó fram og mannfagnaða við skipakomur á Ingólfsgarði.

Torgið skiptist í þrjú svæði, aðkomutorg, fjölnotatorg og dvalarsvæði í krikanum sem byggingin myndar og snýr vel við sól og skjóli. Svart malbik á meginfletinum undirstrikar hafnaryfirbragðið og gefur byggingunni þann rólega forgrunn sem hún þarfnast. Á regnvotum dögum breytist torgið í einn stóran spegil sem byggingin glitrar í. Setstallar úr bryggjuvið við Kalkofnsveg gefa gestum og gangandi möguleika á að staldra við og sjá bygginguna speglast í vatnsfletinum. Stór bryggjupallur við vesturhlið Hörpu býður upp á útiveru og mögulegar útiveitingar á góðum dögum í nálægð við smábátahöfnina.  Gönguleiðir af bryggjunum eru framlengdar yfir Kalkofnsveg í þeim tilgangi að undirstrika forgang gangandi vegfarenda. Miðeyjan Kalkofnsvegar er lögð fjörumöl, lábörðum steinum og ryðguðum stálbitum í minningu upprunalegrar strandlínu.



Frekari upplýsingar um torgið við Hörpu og Kalkofnsveg er að finna hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×