Innlent

Vill stöðva aðildarviðræður vegna makríls

Richard Benyon og Maria Damanaki stinga hér saman nefjum á fundi ráðherraráðs ESB í desember, þar sem fjallað var um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Nordicphotos/afp
Richard Benyon og Maria Damanaki stinga hér saman nefjum á fundi ráðherraráðs ESB í desember, þar sem fjallað var um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Nordicphotos/afp
Umhverfis- og sjávarútvegsráðherra Breta tekur undir með gagnrýnisröddum stjórnarandstöðu þar í landi og segist „alveg sammála“ því að krefjast skuli af Evrópusambandinu að aðildarviðræður Íslands verði stöðvaðar uns leysist úr makríldeilunni, að því er kemur fram á skosku vefsíðunni Press and Journal.

Ráðherrann, Richard Benyon, lét þessi orð falla í neðri deild breska þingsins á fimmtudagskvöld, en umorðaði þetta seinna með því að leysa ætti deiluna í viðræðunum sjálfum.

Benyon segist hafa rætt málið við Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, og hafi útgangspunktur umræðunnar verið að það væri „mjög undarleg hegðun hjá ríki að sækja um aðild að klúbbi og brjóta reglur hans áður en það er orðið meðlimur“.

Lykilatriði deilunnar er sjálfbær nýting, segir ráðherrann, en aðeins eitt prósent af hrygningu makrílsins fari fram á íslensku hafsvæði. Íslendingar og Færeyingar ættu að „setjast niður og ræða málin frekar en að fara fram einhliða“.

Skuggaráðherra Verkamannaflokksins í sjávarútvegsmálum, Tom Greatrex, hafði hafið umræðuna með því að benda á að löndunarbann ESB á makrílafurðum væri óskilvirkt.Hann taldi rangt að hleypa í ESB ríki sem væri að skaða efnahag aðildarríkja. Framtíð margra byggða í Skotlandi væri háð makrílveiðum. - kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×