Fótbolti

Samuel Eto'o útilokar ekki að fara til Inter á láni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Eto'o.
Samuel Eto'o. Mynd/Nordic Photos/Getty
Samuel Eto'o útilokar það ekki að fara á láni til síns gamla félags í vetrarfríinu í Rússlandi en Anzhi Makhachkala keypti Kamerúnmanninn frá Internazionale í ágúst. Internazionale þarf nauðsynlega á styrk að halda í sóknarleiknum.

Samuel Eto'o skrifaði undir samning við Anzhi í haust sem gerði hann að launahæsta fótboltamanni í heimi. Rússneska deildin hefst ekki aftur fyrr en í vor.

„Ég get bara svarað spurningum um Anzhi og get ekkert tjáð mig um félagsskiptamarkaðinn. Núna er ég í Rússlandi en ég veit samt ekki hvað gerist eftir mánuð," sagði Samuel Eto'o við blaðamann Corriere dello Sport.

Eto'o hefur verið orðaður við bæði Internazionale og Chelsea sem fengju þá framherjann á láni frá Anzhi fram á vor.

„Ég er bara að einbeita mér að framtíð minni hjá Anzhi og kemur í raun ekki við hvað menn eru að segja um mig og Inter og Chelsea," sagði Eto'o en sóknarleikur Internazionale hefur nánast lamast eftir að hann fór.

Internazionale hefur aðeins skorað átta mörk í sex leikjum og er eins og er aðeins í 17. sæti í ítölsku deildinni. Eto'o skoraði 37 mörk í öllum keppnum á síðustu leiktíð sinni með Internazionale.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×