Fótbolti

David Luiz klikkaði á víti og Chelsea náði bara jafntefli í Belgíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ramires og David Luiz fagna marki.
Ramires og David Luiz fagna marki. Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea náði aðeins 1-1 jafntefli á móti botnliði Genk í Meistaradeildinni í fótbolta í kvöld. Chelsea fékk frábært tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik en Genk tókst síðan að jafna leikinn í þeim seinni.

Spennan jókst í E-riðlinum þökk sé þessu jafntefli Chelsea og 3-1 sigri á Valencia á heimavelli á móti Bayer Leverkusen. Chelsea er með 8 stig eða tveimur stigum meira en Leverkusen. Valencia er nú aðeins þremur stigum á eftir enska liðinu eftir þennan góða sigur.

John Terry og Frank Lampard voru báðir á bekknum hjá Chelsea en Florent Malouda var hinsvegar í byrjunarliðinu.

Ramires kom Chelsea í 1-0 á 25. mínútu eftir laglegt þríhyrningsspil við Fernando Torres. Chelsea gat bætt við mörkum á næstu mínútum ekki síst á 39. mínútu leiksins þegar David Luiz lét ungverska markvörðinn Laszlo Koteles verja frá sér víti sem var dæmt fyrir hendi.  

Jelle Vossen tryggði Genk síðan jafntefli með laglegu marki eftir flotta sókn á 61. mínútu og Chelsea-menn sáu á eftir tveimur stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×