Erlent

Mínus hjá þeim sem standa utan ESB

Aðstæður í bresku efnahagslífi eru sagðar auka líkurnar á því að stutt sé í að Mervyn King seðlabankastjóri hækki stýrivexti. Fréttablaðið/afp
Aðstæður í bresku efnahagslífi eru sagðar auka líkurnar á því að stutt sé í að Mervyn King seðlabankastjóri hækki stýrivexti. Fréttablaðið/afp
Methalli var á viðskiptum Breta við helstu viðskiptalönd sín í desember og nam við áramót 9,25 milljörðum punda. Þetta er tæplega átta hundruð milljóna punda verri afkoma en í nóvember, samkvæmt upplýsingum bresku hagstofunnar sem birtar voru í gær.

Svipaða sögu er að segja af þeim Evrópuríkjum sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar dró almennt úr viðskiptahalla þeirra landa sem aðild eiga að því. Þrettán milljarða króna afgangur var af vöruskiptum hér í desember síðastliðnum, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Vöruskiptin voru jákvæð um 118,5 milljarða króna á árinu öllu.

Niðurstaðan í Bretlandi er talsvert verri en greiningaraðilar Bloomberg-fréttaveitunnar höfðu almennt gert ráð fyrir. Meðalspá þeirra hljóðaði upp á 8,6 milljarða punda halla á viðskiptum við útlönd.

Bloomberg segir helstu ástæðuna fyrir því að innflutningur jókst talsvert umfram útflutning þá að breska pundið hafi fallið um fimmtung gagnvart myntum helstu viðskiptalanda.

Bloomberg bætir því við að vegna aðstæðna í bresku efnahagslífi hafi líkur aukist á því að stýrivextir hækki bráðlega. Þeir standa nú í hálfu prósenti. Almennt er þó gert ráð fyrir að vaxtastig haldist óbreytt á vaxtaákvörðunarfundi Englandsbanka í dag. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×