Fótbolti

Szczesny: Við áttum skilið að vinna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Wojciech Szczesny, markvörður Arsenal, telur að 2-1 sigur liðsins gegn Olympiakos í Meistaradeild Evrópu í kvöld hafi verið sanngjarn.

Alex Oxlade-Chamberlain og Andre Santos skoruðu mörk Arsenal á fyrstu 20 mínútum leiksins en Grikkirnir fengu þó fullt af færum í leiknum. Þeir skoruðu bara einu sinni en það gerði David Fuster á 27. mínútu.

„Þetta var mjög erfiður leikur,“ sagði Szczesny eftir leikinn í kvöld. „Það vissum við fyrir leikinn. En ég held að það verði að hrósa vörninni okkar fyrir að hafa gert sitt til að tryggja sigurinn því þeir pressuðu nokkuð stíft á okkur.“

„Við spiluðum mjög góðan varnarleik í seinni hálfleik og stóðum ökkur vel. En við töpuðum boltanum of oft á miðjunni og var Olympiakos oft hættulegt í skyndisóknum.“

„En við vorum sterkari aðilinn heilt yfir í seinni hálfleik og áttum skilið að vinna.“

Sjálfur var Oxlade-Chamberlain hæstánægður með markið sem hann skoraði. „Þetta var virkilega góð reynsla,“ sagði kappinn sem var að spila í Meistaradeildinni í fyrsta sinn. „Þetta var stórt skref fyrir mig en hér vil ég vera og ég á vonandi marga leiki eftir í Meistaradeildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×