Enski boltinn

Carlos Tevez: Ég neitaði aldrei að spila fyrir Man City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez á bekknum í gær.
Carlos Tevez á bekknum í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlos Tevez fær meira en 200 þúsund pund í vikulaun eða 37 milljónir íslenskra króna og fékk því litla samúð þegar fréttir bárust af því í gærkvöldi að hann hafi neitað að fara inn á völlinn í 2-0 tapi Manchester City á móti Bayern Munchen.

Roberto Mancini, stjóri Manchester City, talaði um það eftir leikinn að Carlos Tevez spilaði ekki fleiri leiki fyrir sig en Argentínumaðurinn hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann talar um misskilning á bekki City í gærkvöldi.

„Ég var búinn að hita upp í Munchen og var tilbúinn að spila. Þetta er ekki rétti tíminn til að fara út í smáatriði af hverju ég fór ekki inn á völlinn. Ég vil samt taka það fram að ég neitaði aldrei að spila fyrir Man City," sagði Tevez.

„Ég vil biðja alla stuðningsmenn Manchester City, sem ég hef alltaf átt góð samskipti við, afsökunar á öllum misskilningi sem varð til í Munchen. Þeir vita það að þegar ég er inn á vellinum þá geri ég alltaf mitt besta fyrir klúbbinn," sagði Tevez.

„Það var einhver ruglingur á bekknum og ég held að afstaða mín hafi misskilist. Ég er alltaf tilbúinn að spila og uppfylla mínar skyldur," sagði Tevez en það á síðan eftir að koma í ljóst hvort Mancini taki það aftur það sem hann sagði eftir leikinn í gær. Það fór þá ekki á milli mála í gær að ítalski stjórinn væri búinn að loka á þann möguleika að Tevez spilaði einhvern tímann aftur fyrir City.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×