Fótbolti

Villas-Boas sér ekki eftir að hafa sett Kalou inn á

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, sér ekki eftir því að hafa sett Salomon Kalou inn á völlinn þegar lítið var eftir af leik liðsins gegn Valencia í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Chelsea var þá með 1-0 forystu í leiknum þökk sé marki Frank Lampard á 56. mínútu en Kalou fékk dæmda á sig vítaspyrnu fyrir að handleika knöttinn aðeins fjórum mínútum eftir að hann kom inn á.

„Ég ætla ekki að gagnrýna hann fyrir þetta. Svona lagað gerist í fótbolta,“ sagði Villas-Boas eftir leikinn í kvöld.

Spurður hvort að hann hefði átt að setja inn varnarsinnaðri leikmann en Kalou þegar svo lítið var eftir af leiknum sagði Villas-Boas að það hefði ekki skipt neinu máli.

„Þótt maður setji stundum varnarmann inn á er maður ekki endilega að hugsa um varnarleikinn,“ sagði Villas-Boas. „Þeir voru að setja mikla pressu á vinstri kantinn okkar og voru oft að tvöfalda á Jose Bosingwa.“

„En við vorum með góða stjórn á vinstri kantinum enda hafði markið ekkert að gera með það. Ég hefði alveg eins getað sett varnarmann inn á - markið tengdist því ekki neitt.“

Fyrir leikinn var mikið rætt um stöðu Frank Lampard en Villas-Boas hefur oftar en ekki skilið Lampard eftir á bekknum í undanförnum leikjum. En í kvöld var Lampard í byrjunarliðinu og þakkaði fyrir sig með góðu marki.

„Frank hefur skorað reglulega allan sinn feril og kom þetta mark á góðum tíma eins og öll önnur mörk sem hann hefur skorað,“ sagði Villas-Boas. „Hann stóð stig vel enda einn frábær leikmaður - einn sá besti í okkar liði. Við höfum aldrei efast um hans hæfileika og treystum honum 100 prósent - eins og ég var búinn að segja ykkur áður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×