Erlent

Starfsmenn flýja reyk úr kjarnorkuveri

Heimilislaus Fólk sem missti heimili sín í flóðbylgjunni fyrr í mánuðinum hefst nú við í neyðarskýlum. 
Nordicphotos/AFP
Heimilislaus Fólk sem missti heimili sín í flóðbylgjunni fyrr í mánuðinum hefst nú við í neyðarskýlum. Nordicphotos/AFP
Starfsmenn sem unnið hafa að viðgerðum á kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan flúðu í gær í ofboði eftir að hvítur reykur tók að stíga upp af kjarnaofnunum tveimur sem skemmdust í flóðbylgjunni fyrir ellefu dögum.

Sjónarvottar sögðu fréttamönnum BBC að reykurinn virtist stíga frá laug þar sem notaðar geislavirkar eldsneytisstangir eru geymdar. Starfsmennirnir sneru fljótlega aftur til vinnu.

Áður hafði tekist að koma rafmagni á kælibúnað kjarnaofnanna, en ekki hefur enn tekist að gangsetja kælibúnaðinn.

Íbúar í nágrenni kjarnorkuversins í Fukushima í Japan voru í gær varaðir við að drekka kranavatn sökum joðmengunar. Þá hafa stjórnvöld bannað neyslu á ýmsum matvörum sem ræktaðar eru nærri kjarnorkuverinu vegna geislamengunar.

Staðfest hefur verið að 8.450 hafa látið lífið í jarðskjálftanum og flóðbylgjunni sem fylgdi í kjölfar skjálftans. Nærri 13 þúsund er enn saknað. Litlar líkur eru á að fleiri finnist á lífi, en 80 ára konu og barnabarni hennar var bjargað úr húsarústum á sunnudag. Um 500 þúsund misstu heimili sín.

Kostnaður við uppbyggingu eftir jarðskjálfta og flóðbylgju sem olli gríðarlegum skemmdum í Japan 11. mars gæti orðið um 235 milljarðar Bandaríkjadala að mati Alþjóðabankans.

Þetta jafngildir um 27 þúsund milljörðum íslenskra króna, sem eru nærri sextíufaldar tekjur íslenska ríkisins á þessu ári.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×