Fótbolti

Roma og Juventus töpuðu bæði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vincenzo Montella, þjálfari Roma, er orðinn veltur í sessi.
Vincenzo Montella, þjálfari Roma, er orðinn veltur í sessi. Nordic Photos / AFP
Roma keppir ekki í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð og útlit er fyrir að Juventus verði ekki einu sinni með í Evrópudeildinni. Bæði lið töpuðu sínum leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni í dag.

Efstu fjögur lið deildarinnar komast í Meistaradeildina en næstu tvö fá sæti í Evrópudeild UEFA.

Roma tapaði fyrir Catania á útivelli í dag, 2-1, eftir að komist yfir með marki Simone Loria í upphafi leiksins.

Catania skoraði svo tvívegis á síðustu tólf mínútum leiksins og gerði þar með út um Meistaradeildarvonir Rómverja.

Roma er nú í sjötta sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Udinese sem er í fjórða sætinu þegar ein umferð er eftir af tímabilinu. Lazio er í fimmta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Udinese, og því útlit fyrir spennandi baráttu í lokaumferðinni á milli þeirra um síðasta Meistaradeildarsætið.

Juventus hefur átt slæmu gengi að fagna á tímabilinu og ekki skánaði það í dag. Liðið tapaði 1-0 fyrir Parma á útivelli og á fyrir vikið lítinn möguleika á sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

Juventus er í sjöunda sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Roma. Juventus þarf því að vinna Napoli í lokaumferðinni og treysta á að Roma tapi fyrir Sampdoria á sama tíma til að komast í Evrópudeildina á kostnað Roma.

Milan er þegar búið að tryggja sér titilinn á Ítalíu en Inter og Napoli koma næst og eru örugg með sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Napoli og Inter mætast í kvöld en Inter dugir stig til að tryggja sér annað sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×