Erlent

Maður á íslenskum hesti fann týndan dreng

Mikil leit var gerð í alla nótt að þriggja ára gömlum dreng í Danmörku en hann hljópst á brott frá foreldrum sínum á sunnudagsmorgun á Norður-Jótlandi og kom ekki í leitirnar fyrr en í morgun.

Lögreglumenn með leitarhunda og þyrlur höfðu gert dauðaleit að stráknum og flokkar frá heimavarnarliði Danmerkur voru einnig kallaðir til auk þess sem hundruð sjálfboðaliða tóku þátt í leitinni. Það var hinsvegar heimamaður sem var í útreiðartúr á íslenska hestinum sínum sem fann stráksa og amaði ekkert að honum þrátt fyrir að hafa verið einn úti í sólarhring.

Ekstrabladet danska segir að ástæða þess að stráksi hljópst á brott hafi verið sú að hann hafði ítrekað rifið sig úr úlpunni sinni. Mamman greip þá til þess ráðs að setja úlpuna öfuga á hann, þannig að rennilásinn var á bakinu á honum. Holger litla ofbauð þessar aðfarir mömmu og ákvað því að stinga af. Þegar hann fannst var hann enn í úlpunni góðu, sem gæti hafa bjargað honum því kalt var um nóttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×