Erlent

Varaði við flóðbylgju fyrir tveimur árum

MYND/AP
Japanskur jarðskjálftafræðingur segist hafa varað eigendur kjarnorkuversins í Fukushima við hættunni af flóðbylgju fyrir tveimur árum síðan.

Yukinobu Okamura segir í viðtali við CNN fréttastofuna að hann hafi haft samband við öryggisnefnd kjarnorkuversins eftir að rannsókn hans á svæðinu leiddi í ljós að hætta væri á stórri flóðbylgju í kjölfar jarðskjálfta. Hann segist hafa komist að því að árið 869 hafi risastór flóðbylgja gengið yfir svæðið þar sem kjarnorkuverið stendur.

Okamura segist hinsvegar hafa mætt miklu fálæti frá yfirmönnum versins og að ekkert hafi verið gert til þess að bregðast við varnaðarorðum hans. Eigendur Fukushima versins hafa verið harðlega gagnrýndir síðustu daga vegna ónógra upplýsinga og beinlínis rangra, en í gær var sagt að geislunin  í verinu væri tíu milljón sinnum meiri en eðlilegt gæti talist. Sú tala reyndist kolvitlaus, en þó er geislunin um hundrað þúsund sinnum meiri en hún ætti að vera ef allt væri eðlilegt.

Annar skjálfi reið yfir svæðið í gærkvöldi, sá  var öflugur, 6,5 stig, en þó ekkert í líkingu við stóra skjálftann á dögunum sem var um níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×