Erlent

Dauðarefsingum fer fækkandi



Dauðarefsingum á heimsvísu fer fækkandi að því er fram kemur í nýrri skýrslu Amnesty International. Þrátt fyrir að 23 ríki hafi framkvæmt dauðarefsingu á síðasta ári, sem er fjórum ríkjum fleira en árið 2009, fækkaði fjölda þeirra sem teknir voru af lífi.

Árið 2009 voru þeir að minnsta kosti 714 en í fyrra að minnsta kosti 527 að því er fram kemur í skýrslunni. Þessar tölur gefa þó ekki fullkomlega rétta mynd af stöðu mála því tölur frá Kína eru ekki í skýrslunni. Kínverjar eru taldir allra þjóða duglegastir við að beita refsingunni og er talið að þar séu álíka margir teknir af lífi árlega eins og í öllum öðrum löndum heimsins til samans.

Afríkuríkið Gabon bannaði dauðarefsingar í fyrra og varð við það 139 ríkið sem gerir slíkt. Þá lýstu Mongólar því yfir að refsingin yrði ekki notuð, þótt ekki hafi hún verið aflögð alfarið. Engin aftaka fór fram í Evrópu árið 2009 en það breyttist í fyrra þegar Hvít-Rússar beittu refsingunni tvívegis. Ef Kínverjar eru undanskildir fóru flestar aftökur síðasta árs fram í Íran, eða 142. Norður-Kóreumenn og Jemenar koma þar á eftir en Bandaríkjamenn eru í fjórða sæti, með 46 aftökur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×