Innlent

Verjandi OJ Simpson og Tyson í lið með Birgittu

Hinn heimsþekkti lögmaður Alan Dershowitz hefur gngið í lið með Birgittu Jónsdóttur og félögum hennar sem verjast nú fyrir bandarískum dómstólum.

Birgitta og tveir tölvusérfræðingar reyna nú að fá dómara í New York ríki til þess að snúa við ákvörðun sinni um að Twitter samskiptasíðunni verði fyrirskipað að veita dómsmálaráðuneytinu aðgang að Twittersíðum viðkomandi til þess að yfirvöld geti rannsakað tengsl og samskipti þeirra við Wikileaks og Julian Assange.

Kæra var lögð fram í gær og á Twitter síðu Wikileaks segir að Dershowitz hafi verið fenginn til ráðgjafar í málinu.

Dershowitz er prófessor við lagadeild Harvard háskóla en hann varð heimsfrægur þegar hann varði ruðningshetjuna OJ Simpson sem sakaður var um að hafa myrt eiginkonu sína fyrrverandi og ástmann hennar. Þá hefur hann einnig komið boxaranum Mike Tyson til varnar þegar hann hefur þurft á því að halda utan hringsins.

Wikileaks menn segja kröfu stjórnarinnar beina aðför að tjáningarfrelsinu. Það þykir síðan sérstaklega kaldhæðnislegt að á sama degi og Hillary Clinton utanríkisráðherra hélt ræðu um mikilvægi samskiptasíðna á borð við Twitter í baráttunni fyrir frelsi og bættari heimi, væru stjórnvöld að hefja málssókn af þessu tagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×