Innlent

Bræðslumenn greiða atkvæði um verkfall

Flest stefnir í verkfall starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum. Verði af verkfalli mun loðnuvinnsla stöðvast á lykiltímabili vertíðarinnar.
Flest stefnir í verkfall starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum. Verði af verkfalli mun loðnuvinnsla stöðvast á lykiltímabili vertíðarinnar.

Samninganefnd AFLs starfsgreinafélags og Drífanda stéttarfélags starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum hefur slitið viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning. Í kjölfarið verður boðað til atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna um verkfall sem gæti hafist um miðja næstu viku.

„Við gengum mjög langt í gær og töldum okkar samningstilboð vera þess eðlis að menn myndu bara ljúka málinu. Því var hafnað og það kom gagntilboð sem hvert mannsbarn hefði getað sagt sér að við myndum aldrei ganga að,“ segir Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs. Hann segir samningsvilja SA takmarkaðan og sér finnist sem samtökin séu beinlínis að ögra bræðslumenn til verkfalls. „Það þarf eitthvað mikið að gerast til að það verði ekki verkfall,“ segir Sverrir.

Verði af verkfalli mun loðnuvinnsla stöðvast í átta fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi og í Vestmannaeyjum en mikilvægasta tímabil loðnuvertíðarinnar hefst á næstu dögum.

Í tilkynningu á vefsíðu SA segir að komi til verkfalls muni þjóðfélagið verða af miklum verðmætum, fyrirtæki fyrir tjóni og starfsmenn þeirra tapa launagreiðslum. SA hafi hafnað kröfum um 30 prósenta launahækkun sem myndi óhjákvæmilega flæða yfir allan vinnumarkaðinn og leiða af sér verðbólguöldu, enn lægra gengi krónunnar, hærri vexti, meira atvinnuleysi, skattahækkanir og enn lakari lífskjör.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×