Innlent

Segir niðurskurð til grunnskóla nema 200 milljónum ekki 800

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Grunnskólabörn. Mynd/ Vilhelm.
Grunnskólabörn. Mynd/ Vilhelm.
Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri í Reykjavík, segir misskilnings gæta þegar því er haldið fram að hagræða þurfi í rekstri grunnskóla Reykjavíkurborgar um 800 milljónir. Því hefur verið haldið fram í opinberri umræðu að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar hafi staðið til að skera niður um 1000 milljónir í rekstri grunnskóla. Nú standi hins vegar eftir 800 milljóna króna niðurskurður eftir að Reykjavíkurborg hafi, fyrr í vikunni, ákveðið að auka fjárheimildir um 200 milljónir.

„Sannleikurinn er sá að sú hagræðing og sú niðurskurður sem lenti á grunnskólum Reykjavíkurborgar í fjárhagsáætlun 2011 eru 290 milljónir sem fara beint inn í grunnskólana sem koma þá að beinum þætti skólastjórans. Nú er búið að bæta við 200 milljónum," segir Ragnar. Hann segir því að eftir standi 92 milljónir sem skólastjórar eigi eftir að vinna með í hagræðingu. „Þar fyrir utan eru síðan 114 milljóna hagræðing allt í allt sem er þáttur Menntasviðs í sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Þetta eru tölurnar og þarna er stór munur á málflutningi," segir Ragnar.

Ragnar segir að fleiri menntastofnanir en grunnskólarnir heyri undir Menntasvið. Þar sé um að ræða tónlistaskóla, námsflokka og skólahljómsveitir, en í þessum tölum sé bara verið að tala um grunnskóla. Ragnar segir það vera mjög óábyrgt að vera með rangar tölur og skapa óöryggi hjá foreldrum.

Foreldrar ætla að hittast á Skólavörðuholti fyrir framan Hallgrímskirkju klukkan hálffimm í dag. Gengið verður sem leið liggur niður Skólavörðustíg og að Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem opinn fundur verður fyrir foreldra um niðurskurðaráform borgarinnar í leik- og grunnskólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×