Innlent

Vissi um andlát móður sinnar - fékk þó aldrei formlega staðfestingu

Valur Grettisson skrifar
Tryggingastofnun vissi ekki um afdrif Steinþóru fyrr en áratug síðar.
Tryggingastofnun vissi ekki um afdrif Steinþóru fyrr en áratug síðar.

„Það láðist bara að senda þetta vottorð," segir dóttir Steinþóru Eyjólfsínu Steinþórsdóttur, en Tryggingastofnun vissi ekki að Steinþóra væri látin fyrr en tíu árum eftir andlát hennar. Þá hafði stofnunin greitt fjórtán milljónir króna til hennar í lífeyri. Steinþóra var búsett í smábæ í Bandaríkjunum, nærri Fargo. Hún bjó þar þegar hún lést.

Steinþóra var ríflega áttræð þegar hún lést árið 2000. Síðan þá hefur hún verið á lífi í kerfinu en Ríkisskattstjóri og Tryggingastofnun reiða sig á þjóðskrá til þess að vita um afdrif einstaklinga. Svo virðist sem dánarvottorð hafi aldrei borist til Íslands frá Bandaríkjunum, þar sem hún bjó frá sjötta áratug síðustu aldar.

Steinþóra átti níu börn, þar af eru sex látin. Anný Dóra Halldórsdóttir er eina eftirlifandi barn Steinþóru hér á landi en hún á tvær systur búsettar í Bandaríkjunum.

„Það kom okkur á óvart þegar við heyrðum að það væri verið að taka út fé látinnar konu," segir Anný Dóra sem heyrði af andláti móður sinnar sama dag og hún lést. Anný hringdi þá til Bandaríkjanna til þess að vitja móður sinnar og fékk þá þær fregnir að hún væri dáin.

„Ég spurði hvort það væri hægt að senda öskuna til Íslands en fékk aldrei svar. Auðvitað tók ég það trúanlegt að hún væri látin en fékk aldrei neina staðfestingu um það í hendurnar," segir Anný Dóra sem fékk aldrei dánarvottorð sent til Íslands, því var andlát móður hennar aldrei formlega staðfest. Steinþóra var jarðsungin í Bandaríkjunum.

Fjölskylda Annýar hefur sent Ríkissjónvarpinu bréf þar sem krafist er afsökunarbeiðni vegna umfjöllunar um andlát móður hennar sem er spyrnt saman við bókina Djöflaeyjuna eftir Einar Kárason.

„Þessar fréttir í Ríkisútvarpinu voru til háborinnar skammar. Það þurfti ekki að blanda þessari Djöflaeyju inn í þetta mál," segir Anný en í frétt Ríkisjónvarpsins segir að Steinþóra og aðrir úr hennar fjölskyldu séu af mörgum talin vera fyrirmyndir þeirra persóna sem fram koma í bókum Einars, Djöflaeyjunni, Gulleyjunni og Fyrirheitna landinu. Steinþóra er þannig talin fyrirmynd Gógóar, sem var mamma Badda í Djöflaeyjunni, leikin af Sögu Jónsdóttur.

„Hver getur sannað að við séum hluti af þessari Djöflaeyju?" spyr Anný Dóra og vandar ekki höfundi bókanna kveðjurnar: „Hann Einar Kárason ætti bara að skammast sín."

Aðspurð sagði Anný Dóra að hvorki Tryggingastofnun né lögregla hefði haft samband við sig til þess að fá upplýsingar um afdrif móður sinnar.

Fjársvikadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar málið. Það verður hinsvegar að teljast ólíklegt að féð verði endurheimt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×