Erlent

Höfðu betur gegn hersveitum Gaddafís

Frá Líbíu
Frá Líbíu Mynd/AFP
Líbískir uppreisnarmenn hafa nú náð olíuborginni Ajdabiya á sitt vald og höfðu þar betur gegn hersveitum Gaddafís einræðisherra í nótt. Gaddafí virðist þó ekki vera á þeim buxunum að gefast upp.

Stuðningsmenn Gaddafís höfðu hertekið borgina í síðustu viku en en uppreisnarmenn höfðu betur í nótt eftir sprengjuárás sjöundu nóttina í röð með stuðningi loftárása bandamanna.

Um 100 þúsund manns búa í borginni sem er talin ein af lykilborgum í landinu en sjónvarvottar segja sprengjuárásina í nótt hafa verið þá hörðustu til þessa. Heimildarmaður breska ríkisútvarpsins sagðist hafa talið 20 skriðdreka á vegum Gaddafís eftir árásina sem annaðhvort höfðu verið yfirgefnir eða eyðilagðir.

Þá bætti hann því við að fólk hefði staðið uppi á yfirgefnum skriðdrekum og skotið út í loftið, dansað á götum og þeytt bílflautum. Auk þess hefur fólk hrópað slagorð þar sem  þeim Obama bandaríkjaforseta og David Cameron forsætisráðherra Bretlands er þakkað.

Uppreisnarmenn kemba nú götur borgarinnar og reyna að sjá til þess að engar leyniskyttur á vegum Gaddafí séu enn í borginni. Þó hafa borist fréttir af því að menn einræðisherrans hafi enn yfirráð yfir vesturhluta borgarinnar.

Þá segja sjónarvottar að ratsjárstöð hafi verið eyðilögð í borginni Trípólí í nótt. Gaddafí virðist þó ekki vera á þeim buxunum að gefast upp og hefur hækkað alla hermenn og lögreglumenn sína um tign, auk þess sem hann hefur vopnað almenna borgara til þess og hvatt þá til þess að verja land sitt.

Hersveitir Gaddafís reyna nú að ná borginni Misrata aftur á sitt vald úr höndum uppreisnarmanna, en bardagar hafa staðið þar yfir síðan í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×