Körfubolti

Drekarnir töpuðu í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur skilaði flottum tölum í kvöld eins og svo oft áður.
Hlynur skilaði flottum tölum í kvöld eins og svo oft áður. Mynd/Valli
Íslendingaliðið Sundsvall Dragons mátti sætta sig við tap fyrir LF Basket á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld, 99-88. Logi Gunnarsson og félagar í Solna Vikings unnu hins vegar sinn leik.

Solna hafði betur gegn botnliði Örebro á útivelli, 85-71. Logi var stigahæstur í liði Solna með 21 stig en hann gaf þar að auki fimm stoðsendingar og tók þrjú fráköst. Alls spilaði hann í rúmar 34 mínútur í leiknum.

LF Basket komst á toppinn með sigrinum á Sundsvall Dragons í kvöld en liðið hefur unnið tólf leiki af sautján til þessa. Sundsvall er í fjórða sætinu með ellefu sigurleiki.

Jakob Sigurðarson var stigahæstur hjá Sundsvall með átján stig, Hlynur Bæringsson skoraði sautján auk þess að taka fjórtán fráköst og Pavel Ermolinskij skoraði níu stig. Hann gaf einnig níu stoðsendingar í leiknum.

Þá tapaði Jämtland fyrir Södertälje á útivelli, 109-81. Brynjar Þór Björnsson skoraði fimm stig í leiknum fyrir Jämtland sem er í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar. Solna er í áttunda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×