Innlent

Gjafmildu brúðhjónin: Gaman að gefa af sér

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á mynd eru, auk brúðhjónanna, Auður Ragnarsdóttir, deildarstjóri barnadeildar, dagdeildar og leikstofu á Barnaspítala Hringsins.
Á mynd eru, auk brúðhjónanna, Auður Ragnarsdóttir, deildarstjóri barnadeildar, dagdeildar og leikstofu á Barnaspítala Hringsins.
„Það er gaman að geta gefið af sér. Það er besta brúðkaupsgjöfin, töldum við," segir hinn nýkvænti Friðrik Arilíusson í samtali við Vísi. Hann og Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir, eiginkona hans, gengu í það heilaga í Fríkirkjunni þann 27. nóvember síðastliðinn.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag ákváðu þau að heita á gesti veislunnar um að láta Barnaspítala Hringsins njóta stuðnings í stað þess að þau fengu gjafir í tilefni dagsins. „Okkur langaði nú bara til að gleðja einhverja góða stofnun og Barnaspítalinn stóð okkur nær," segir Friðrik. Barnaspítali Hringsins tók svo við gjöfunum, fullkomnum súrefnismettunarmæli og leikföng á leikstofuna fyrir fáeinum dögum.

Þau Friðrik og Íris Ösp voru gefin saman í Fríkirkjunni af Hirti Magna og segir Friðrik að sú hugmynd að láta gjafirnar frekar renna til góðgerðamála hafi mælst afar vel fyrir. Sumir hafi ákveðið að láta féð renna til annarra góðgerðafélaga.

Alls söfnuðust 315 þúsund fyrir Barnaspítala Hringsins vegna þessa höfðinglega framtaks brúðhjónanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×