Innlent

Sérstakur saksóknari fær gögnin frá Lúxemborg

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hæstiréttur Lúxemborgar hefur úrskurðað að lögregluyfirvöld afhendi sérstökum saksóknara á Íslandi öll gögn úr Banque Havilland bankanum í Lúxemborg. Gögnin eru talin hafa verulega þýðingu fyrir rannsókn á Kaupþingi.

Hinn 12. febrúar á síðasta ári réðst Lögreglan í Lúxemborg í húsleit hjá Banque Havilland bankanum, sem var áður Kaupþing í Lúxemborg, að beiðni sérstaks saksóknara. Húsleitin var gerð vegna rannsóknar embættisins á meintri markaðsmisnotkun Kaupþings banka og grunsemda um brot á auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga. Nítján aðilar sem hafa tengsl við Banque Havilland kærðu afhendingu gagnanna.

Hæstiréttur Lúxemborgar hefur nú kveðið upp úrskurð um að lögregluyfirvöldum í Lúxemborg beri að afhenda sérstökum saksóknara ölll haldlögð gögn úr Banque Havilland í Lúxemborg sem tengjast rannsóknum á málum Kaupþings. Hæstiréttur Lúxemborgar staðfesti þar með úrskurð lægra setts dómstigs í Lúxemborg og er gagnanna að vænta fljótlega til Íslands, samkvæmt upplýsingum fréttastofu Stöðvar 2.

Talið er að gögnin hafi verulega þýðingu fyrir rannsókn sérstaks saksóknara, enda beinast rannsóknir embættisins að starfsemi eignarhaldsfélaga sem voru í viðskiptum við Kaupþing í Lúxemborg og lánveitingum bankans til þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×