Holger Stanislawski sendi Gylfa Þór Sigurðssyni skilaboð um að hann þyrfti að vera beintskeyttari fyrir framan mark andstæðingsins heldur hann hefur verið hingað til á tímabilinu.
Stanislawski nefndi ekki Gylfa á nafn í viðtölum við þýska fjölmiðla en öllum var þó ljóst um hvern var rætt. „Þegar við erum dauðafríir fyrir framan markið þá viljum við helst finna 1-2 aðra leikmenn í betri stöðu og helst líka leggja boltann fyrir verri fótinn,“ sagði Stanislawski í kaldhæðnistón en þetta er haft eftir honum í þýska blaðinu Bild í gær.
Ernst Tanner, framkvæmdarstjóri Hoffenheim, sagði í sömu grein að Gylfi væri einfaldlega í lægð. „Hann fyllist örvæntingu þegar hann á að skjóta. Hann leggur kannski boltann rangt fyrir sig, eins og þjálfarinn segir, og klúðrar þannig færinu. Gylfi efast um sjálfan sig þessa stundina og er einfaldlega í lægð.“
Gylfi Þór skoraði níu mörk á sínu fyrsta tímabili í þýsku úrvalsdeildinni og lagði upp þrjú til viðbótar. Hann meiddist á undirbúningstímabilinu og missti af fyrstu umferðunum en hefur í fjórum leikjum í haust lagt upp eitt mark en ekki tekist að skora sjálfur.
„Ég er sannfærður um að hann fari senn að líkjast þeim leikmanni sem hann var áður. Hann þarf bara að skora eitt mark og þá kemur hitt að sjálfu sér,“ bætti Tanner við. Stanislawski tók í svipaðan streng.
„Það þýðir ekkert að leggjast í volæði. Menn þurfa bara að vera vakandi, einbeittir og vinna fyrir hlutunum.“
Þjálfari Hoffenheim vill fá meira frá Gylfa
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið




Forest tók stórt skref í átt að Meistaradeild Evrópu
Enski boltinn


Trúir á Óla Kristjáns og Jesú Krist
Íslenski boltinn



