Fótbolti

Villas-Boas: Ég myndi aldrei fyrirgefa mér það ef Chelsea vinnur ekki titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
André Villas-Boas, stjóri Chelsea.
André Villas-Boas, stjóri Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
André Villas-Boas, stjóri Chelsea, er á góðri leið með Chelsea-liðið sem hefur spilað sókndjarfan og árangursríkan fótbolta að undanförnu. Portúgalinn dreymir um að liðið spili skemmtilegan fótbolta eins og Barcelona en það skipti hans samt mestu að vinna titla.

„Ég vil bæði búa til gott og skemmtilegt lið. Ég vil að liðið mitt spili flottan fótbolta en árangurinn er samt mun sýnilegri í bikarskápnum. Þessu liði er ætlað að vinna titla. Ég myndi aldrei fyrirgefa sjálfum mér það ef Chelsea vinnur ekki titla," sagði André Villas-Boas.

„Ég vil eiga feril sem ég get verið stoltur af. Það mun koma að þeim tímapunkti þar sem ég tel að ég hafi gert nóg og þá mun ég hætta. Ég vil samt gera eitthvað sem ég get verið stoltur af og það er markmiðið mitt núna," sagði Villas-Boas sem fagnaði 34 ára afmælinu sínu á mánudaginn.

„Þetta er bara byrjunin á mínum ferli og ég hef mörg markmið til að stefna að í framtíðinni. Ég vil líka prófa eitthvað nýtt," sagði Villas-Boas en vildi ekki fara nánar út í það.

Chelsea hefur skorað 23 mörk á tímabilinu þar af 13 þeirra í síðustu fjórum leikjunum. Eina tapið kom á móti Manchester United á Old Trafford. Genk kemur í heimsókn á Brúnna í Meistaradeildinni í kvöld þar sem Chelsea hefur náð í 4 stig af 6 mögulegum og er í ágætum málum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×