Innlent

Fréttir vikunnar: Alvarleg líkamsárás og bankamenn yfirheyrðir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árásin var gerð við veitingastaðinn Players.
Árásin var gerð við veitingastaðinn Players.
Það var ýmislegt sem vakti athygli í síðustu viku. Ellefu manns voru fluttir á spítala eftir tvö slys á Reykjanesbrautinni á laugardaginn fyrir viku. Sem betur fer meiddist enginn alvarlega.

Sama dag sögum við frá því að fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Carol Van Voorst, sendi langan póst til Bandaríkjanna þar sem hún rökstuddi í fimm liðum afhverju bandarísk yfirvöld ættu að lána Íslandi peninga, sem þáverandi seðlabankastjóri seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, óskaði eftir til að styrkja gjaldeyrisvaraforða íslenska ríkisins. Þetta kom fram í skjölum WikiLeaks sem voru birt á vefnum.

Við sögðum svo frá því á sunnudeginum að alvarleg líkamsárás var framin við skemmtistaðinn Players í Kópavogi um klukkan þrjú aðfaranótt sunnudagsins. Karlmaður hafði verið laminn og þegar hann féll í götuna var farið að sparka í höfuð mannsins samkvæmt uplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Á sunnudeginum sögðum við líka frá því að Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, væri mættur til þess að gefa skýrslu hjá sérstökum saksóknara. Hann kvaðst telja að allt sem hann hefði gert í störfum sínum fyrir bankann hefði verið í samræmi við lög.

Á mánudeginum sögðum við frá því að fámennur hópur fólks kom saman á Austurvelli til að mótmæla. Einn var handtekinn en hann var að reyna að stöðva mótmælendur við iðju sína og taldi þá raska ró Alþingis. Maðurinn var færður í lögreglubíl.

Á mánudaginn var líka sagt frá því að á fjórða tug vitna og sakborninga hefðu verið yfirheyrðir af embætti sérstaks saksóknara vegna meintrar markaðsmisnotkunar Landsbankans fyrir hrun. Enn er verið að yfirheyra menn í tengslum við málið.

Á þriðjudaginn sögðum við frá því að tónlistarmaðurinn Sigurjón Brink, sem er betur þekktur sem Sjonni, varð bráðkvaddur að heimili sínu í Garðabæ kvöldið áður. Sigurjón lætur eftir sig eiginkonu, Þórunni Ernu Clausen, og fjögur börn. Bráðabirgðaniðurstöður krufninga benda til þess að banamein hans hafi verið heilablóðfall.

Við sögðum einnig frá réttarhöldum yfir níumenningunum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir eru ákærðir fyrir árás á Alþingi. Lögreglan var með viðbúnað í grennd við héraðsdóm en þrátt fyrir snörp orðaskipti í dómssal voru engin ólæti fyrir utan. Fréttamaður Vísis fylgdist með réttarhöldunum allan tímann en aðalmeðferð stóð yfir í þrjá daga.

Kúabú á Norðurlandi var sektað um 50 þúsund krónur að vanrækja að tryggja kúnum á búinu lögbundna átta vikna útiveru yfir árið.

Á fimmtudaginn sagði Vísir frá því að sérstakur saksóknari væri í húsleitum á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Til rannsóknar voru millifærslur Landsbankans daginn sem neyðarlögin voru sett í október 2008. Húsleitir voru gerðar í MP banka, Straumi og Seðlabankanum. Fjórir fyrrverandi starfsmenn Landsbankans voru handteknir þennan dag en látnir lausir aftur.

Á föstudag sögðum við frá því að foreldrar grunnskólabarna hittust á fundi þar sem ályktun til borgarstjóra var samþykkt. Í ályktuninni er harðlega mótmælt niðurskurði í grunnskólum Reykjavíkur þriðja árið í röð og að enn frekari aðgerðir muni skaða skólastarfið um ókomna framtíð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir börnin okkar.

Í gær sögðum við frá því að Persónuvernd hefði vísað frá máli lögreglumanns sem kærði Þráinn Bertelsson alþingismann til Persónuverndar. Rannsóknarlögreglumaðurinn Ágúst Sigurjónsson sendi Þráni, og átta öðrum þingmönnum, bréf vegna afstöðu þeirra til máls nímenninganna sem ákærðir eru fyrir árás á Alþingi. Þingmennirnir stóðu að þingsályktunartillögu um að fella skyldi málið niður. Þráinn áframsendi bréfið á Stefán Eiríksson lögreglustjóra. Ágúst taldi að Þráni hefði verið óheimilt að senda bréfið til þriðja aðila.

Við sögðum líka frá því í gær að það vantar allt að 40 dagforeldra í Reykjavík um þessar mundir. Leikskólasvið Reykjavíkurborgar ákvað því að bregða á það ráð að auglýsa eftir dagforeldrum í Fréttablaðinu. Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, segir að þetta hafi líka verið gert í fyrra með góðum árangri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×