Erlent

Telur sig hafa fundið verk eftir Michelangelo

Helga Mjöll Stefánsdóttir. skrifar
Pietá eða Móðursorg eftir Michelangelo sem varðveitt er í St. Peter's Basilica í Róm.
Pietá eða Móðursorg eftir Michelangelo sem varðveitt er í St. Peter's Basilica í Róm.
Bandaríski rithöfundurinn Roy Doliner telur sig hafa fundið listaverk eftir endurreisnarmálarann Michelangelo. Verkið sem er lítil höggmynd fannst við ítalska forngripabúð í gömlum og skítugum pappakassa. Doliner segist hafa orðið orðlaus af hrifningu þegar hann sá styttuna og strax verið fullviss um að þetta væri listaverk eftir meistarann, en hann hefur nú skrifað bók um þennan merka fund sem von er á næstu misserum.

Doliner, sem upplýsti fyrst um fundinn í desember á síðasta ári, segist ekki vilja gefa upp hvar verkið sé niðurkomið en hefur leyft fjölmiðlum að bera það augum. Það var listaverkasafnari sem setti sig í samband við Doliner eftir að hann fann fyrrnefnt verk og sá á því undarleg tákn, sambærileg og Michelangelo er þekktur fyrir. En Doliner hefur meðal annars sérhæft sig í þeim dularfullum táknum sem finna má í verkum eftir Michelangelo og skrifað bók um þau efni.

Verkið frummynd af þekktri höggmynd

Doliner telur að höggmyndin, sem sýnir Maríu mey halda á dauðum líkama Jesús í fangi sér, sé hið upprunalega listaverk sem Michelangelo er hvað frægastur fyrir og kallast Móðurást eða Pieta og er varðveitt í St. Peter's Basilica í Róm. Listfræðingar á Ítalíu eru ekki sammála Doliner og halda því fram að höggmyndin sé fummynd af verkinu Madonna della Febbre eftir myndhöggvarann Andrea Bregno. Hann var einnig þekktur listamaður á endurreisnartímabilinu líkt og Michelangelo.

„Ég vissi um leið og ég sá verkið að það væri verk Michelangelos. Hann hefur gert þessa litlu höggmynd og notað sem fyrirmynd af þeirri stærri sem við þekkjum öll í dag," sagði Doliner. Búið er að gera rannsókn á verkinu og er talið að það hafi verið gert á milli 1473 – 1496 og geta því bæði Bregno og Michelangelo átt verkið. „Ef þú sérð verkið með eigin augum ertu viss um að það er enginn annar en Michelangelo sem gerði þetta stórkostlega verk," sagði Doliner við AFP fréttastofuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×