Fótbolti

Diego Forlan: Ég er með tilboð frá Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Forlan.
Diego Forlan. Mynd/Nordic Photos/Getty
Diego Forlan, framherji Atletico Madrid og landliðs Úrúgvæ, segist vera með tilboð frá ítalska félaginu Inter og talar jafnframt um það að hann sé spenntur fyrir því að fá að spreyta sig í ítalska boltanum.

Diego Forlan er væntanlega ætlað að fylla í skarð Samuel Eto'o sem Inter er um það bil að selja til rússneska félagsins Anzhi Makhachkala.

„Ég hef fengið tilboð frá Nerazzurri [Inter]. Það væri draumi líkast að komast til Mílanó og fá að spila fyrir Inter," sagði Forlan í viðtali hjá ítalska blaðinu La Gazzetta dello Sport. Forlan segir einnig að tyrkneska félagið Galatasaray sé í samkeppni við Inter.

„Eina tyrkneska liðið sem hefur haft samband vð mig er Galatasaray. Þeir eru frábært félag en ég hef ekkert heyrt frá Besiktas og Fenerbahce. Það er ekki mikill munur peningalega á Tyrklandi og restinni af Evrópu. Tyrkland er frábært land og það væri gaman að spila þar einhvern daginn," sagði Diego Forlan.

Diego Forlan er orðinn 32 ára gamall en hann hefur spilað með Atletico Madrid frá árinu 2007 og er með 74 mörk í 134 leikjum í spænsku deildinni á þeim tíma. Forlan lék áður með Independiente í Argentínu (1997–2001), Manchester United í Englandi (2001–2004) og Villarreal á Spáni (2004–2007).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×