Innlent

Bretar styðja Íslendinga í aðildarviðræðunum

Breska forsætisráðuneytið segir Bretland styðja Íslendinga í aðildarviðræðum sínum við ESB. Þetta kemur fram í svari við fyrirpurn Össurar Skarphéðinssonar um ummæli sjávarútvegsráðherra Breta um að ESB ætti að fresta aðildarviðræðum við Ísland þar til lausn finnist á makríldeilunni.

Breski þingmaðurinn Tom Greatrex krafðist þess á fimmtudag að aðildarviðræðum Evrópusambandsins við Ísland yrði frestað þar til samkomulag næðist í makríldeilunni. Þingmaðurinn sagði það i rangt að veita Íslandi inngöngu í Evrópusambandið á sama tíma og landið virti ekki evrópskar reglugerðir um makrílkvóta ynni efnahagslegar skemmdir á aðildarríkjum sambandsins.

Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra Bretlands tók undir þessi orð þingmannsins og sagðist vera hjartanlega sammála honum. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sendi því fyrirspurn til breska forsætisráðuneytisins og óskaði eftir skýringum og upplýsingum um hvort einhver stefnubreyting hafi orðið á stuðningi Breta við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Í svörum frá breska forsætisráðuneytinu sem bárust utanríkisráðuneytinu í dag ítrekar David Cameron að ekkert hefði breyst frá því að hann lýsti því yfir á fundi sínum með Jóhönnu Sigurðardóttur að aðildarviðræður Íslands og Makríldeilan væru aðskilin mál sem ekki ættu að hafa áhrif hvort á annað. Þá njóti Íslendingar enn fulls stuðnings Breta í aðildarviðræðuferlinu við Evrópusambandið þrátt fyrir deiluna um makrílveiðar Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×