Brasilíumaðurinn Diego er ekki vinsælasti maðurinn í Wolfsburg-liðinu í dag eftir 0-1 tapleik á móti Hannover 96 í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina. Diego hunsaði nefnilega fyrirmæli þjálfarans Steve McClaren og tók vítaspyrnnu í leyfisleysi í stöðunni 0-0.
Diego skaut í slána úr vítinu og Wolfsburg-liðið endaði síðan á því að tapa leiknum. McClaren hafði ákveðið að Patrick Helmes væri vítaskytta liðsins en Diego hrifsaði hinsvegar boltann af honum og heimtaði að fá að taka vítið.
Það má sjá þetta allt saman gerast í myndbandinu hér fyrir ofan þar sem Helmes horfir hissa til McClaren eftir að Diego hafði tekið af honum boltann.
„Við vorum búnir að ákveða það að Patrick Helmes væri vítaskytta liðsins og öllu liðinu hafði verið tilkynnt það. Diego óhlýðnaðist okkur og hann átti aldrei að taka þetta víti. Við verðum að ræða þetta betur," sagði Steve McClaren á heimasíðu Wolfsburg.
Þýska blaðið Bild skrifar í dag að Diego gæti fengið hundrað þúsund evra sekt sem og að vera settur í agabann.
Fótbolti