Innlent

Transfólk fordæmir orðaval þulu í Eurovision

Dana International söng sigurlag ísraela í Eurovision árið 1998, og tók aftur þátt í ár.
Dana International söng sigurlag ísraela í Eurovision árið 1998, og tók aftur þátt í ár.
„Bleiki hnefinn fordæmir niðrandi ummæli Hrafnhildar Halldórsdóttur Eurovision-þulu og krefst þess að hún, ásamt Ásgrími Angantýssyni málfarsráðunaut RÚV og Páli Magnússyni útvarpsstjóra, biðjist afsökunar vegna fordómafullra ummæla Hrafnhildar frá því í gær um keppanda Eurovision sem farið hefur í aðgerð til leiðréttingar á kyni."

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Bleika hnefanum, aðgerðahópi róttækra kynvillinga. Í hópnum er meðal annars transfólk.

Áður en ísraelska söngkonan Dana International steig á svið í seinnii undankeppninni á fimmtudag, sagði Hrafnhildur: „Dana heitir í raun Yaron Cohen og er tæplega fertugur karlmaður. Eftir kynskiptingu heitir hún Sharon Cohen, þetta vita auðvitað allir því Dana sigraði Eurovision keppnina árið 1998 í Birmingham."

Krafa Bleika hnefans er að Hrafnhildur biðji almenning, sérstaklega transfólk, afsökunar á ummælunum í beinni útsendingu frá Eurovision-söngvakeppninni á morgun 14. maí. Jafnframt skorar hópurinn á Pál og Ásgrím að biðjast afsökunar skriflega.

Dana International er ekki karlmaður - hún er kona sem fæddist í karlmannslíkama og fór í aðgerð til leiðréttingar á kyni. Hún heitir ekki Yaron Cohen heldur Sharon Cohen, hið rétta er að hún hét Yaron.

„Ummæli Hrafnhildar bæði einkennast af og ýta undir skilningsleysi og fáfræði gagnvart transfólki. Það er sérlega alvarlegt í ljósi þess að leitandi er að öðrum hópi í íslensku samfélagi sem verður fyrir álíka miklum fordómum. Félagsleg og lagaleg réttindi hópsins eru í óvissu og andlegt álag mikið. Það er því mjög alvarlegt þegar sjónvarp allra landsmanna ýtir undir fordóma með þeim hætti sem gert var í beinni útsendingu frá Eurovision á fimmtudaginn sl.," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×