Innlent

Neitaði sök í manndrápsmáli

Redouane Naoui Fyrirtaka í máli gegn honum fór fram í héraðsdómi í vikunni. Fréttablaðið/gva
Redouane Naoui Fyrirtaka í máli gegn honum fór fram í héraðsdómi í vikunni. Fréttablaðið/gva
Tæplega fertugur karlmaður, Redouane Naoui, neitaði sök við fyrirtöku máls í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni, þar sem hann er sakaður um manndráp. Naoui bar við minnisleysi um þá atburði sem áttu sér stað í júlí á veitingastaðnum Monte Carlo í Reykjavík, þar sem maður var stunginn með hnífi og lést síðan af völdum áverkanna.

Redouane Naoui er gefið að sök að hafa að kvöldi fimmtudagsins 14. júlí 2011, á veitingastaðnum Monte Carlo á Laugavegi 34 í Reykjavík, veist að íslenskum manni með hnífi og stungið hann í hálsinn vinstra megin með þeim afleiðingum að slagæð fór í sundur.

Árásarmaðurinn, sem hefur verið búsettur hér á landi í átta ár, var handtekinn á veitingastaðnum eftir atlöguna. Maðurinn sem fyrir árásinni varð var fluttur á Landspítalann. Hann lést 26. júlí 2011 af völdum áverkanna.

Aðstandendur hins látna krefjast þess að Naoui verði dæmdur til greiðslu bóta samtals að fjárhæð ríflega fimm milljónir króna.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×