Erlent

Kona verður forsætisráðherra

Yingluck Shinawatra fagnar sigri Puea Thai flokksins í þingkosningum í Taílandi. nordicphotos/afp
Yingluck Shinawatra fagnar sigri Puea Thai flokksins í þingkosningum í Taílandi. nordicphotos/afp
Taíland, ap Yingluck Shinawatra verður forsætisráðherra Taílands, fyrst kvenna, en flokkur hennar, Puea Thai, vann stórsigur í þingkosningunum í gær.

Abhisit Vejjajiva, forsætisráðherra landsins, viðurkenndi í gær ósigur Lýðræðisflokksins og sagðist reiðubúinn að gefa Shinawatra tækifæri til að mynda ríkisstjórn. Hann sagðist vilja sjá samheldni og sættir og að Lýðræðisflokkurinn væri tilbúinn til stjórnarandstöðu.

Shinawatra fór sjálf varlega í yfirlýsingar en sagðist myndu leggja sig fram um að vinna í þágu fólksins og að mikið verk væri fyrir höndum.

Þá sagði hún viðræður hafnar við einn af smærri flokkunum um samstarf og að rætt yrði við fleiri flokka.

Yingluck Shinawatra er nýgræðingur í stjórnmálum og eru vinsældir hennar raktar til bróður hennar, Thaksins Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra. Ríkisstjórn hans var steypt af stóli með hervaldi árið 2006. Hann hefur verið í útlegð síðan og sagðist í gær ekki væntanlegur heim strax, hann vildi ekki trufla sáttaferlið sem fram undan væri. - rat




Fleiri fréttir

Sjá meira


×