Erlent

Hefur ekki verið meiri í 40 ár

Þetta er algjör viðsnúningur frá því kreppan var sem verst, segir aðalhagfræðingur Nordea banka um þensluna í sænsku efnahagslífi.
Þetta er algjör viðsnúningur frá því kreppan var sem verst, segir aðalhagfræðingur Nordea banka um þensluna í sænsku efnahagslífi.
Vöxtur í sænsku efnahagslífi sló met á síðasta fjórðungi í fyrra þegar hann mældist 7,3 prósent. Jafn mikið stökk á milli ársfjórðunga hefur ekki mælst frá 1970, að sögn sænska dagblaðsins Dagens Nyheter. Hagvöxtur yfir árið allt mældist 5,5 prósent og hafa slíkar tölur ekki sést þar í landi frá 1970.

Þetta er meiri vöxtur en flestir greiningaraðilar þar í landi höfðu gert ráð fyrir. Aukin neysla sænskra heimila á mesta hlutdeild í hagvextinum, um 2,1 prósent. Neysla jókst um 4,3 prósent á milli ára í fyrra og kom það meðal annars fram í mikilli sölu á bílum og heimilistækjum. Þá var þensla á vinnumarkaði og fjölgaði bæði störfum og vinnustundum. „Vöxtur upp á sjö prósent hefur jákvæð sálfræðileg áhrif og eykur sjálfstraustið í sænsku efnahagslífi, sem er mikilvægt," segir Annika Winsth, aðalhagfræðingur hjá Nordea-bankanum, í samtali við Dagens Nyheter.

Í netútgáfu norska dagblaðsins Aftenposten kemur fram að hagvöxtur í Noregi hafi á sama tíma aukist um 0,3 prósent á milli ársfjórðunga og tólf mánaða hagvöxtur mælst 2,2 prósent í fyrra. Meðalhagvöxtur innan aðildarríkja Evrópusambandsins var 1,8 prósent á sama tíma. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×