Erlent

Mikil skothríð í höfuðborginni

Uppreisnarmenn búa sig undir átök í borginni Ra’s Lanuf í Líbíu í gær. nordicphotos/afp
Uppreisnarmenn búa sig undir átök í borginni Ra’s Lanuf í Líbíu í gær. nordicphotos/afp
Hörð átök milli uppreisnarmanna og hersveita, sem hliðhollar eru Muammar Gaddafi, héldu áfram víða í Líbíu um helgina. Ríkissjónvarpsstöð landsins greindi frá því í gær að herinn hefði aftur náð völdum í borgunum Misrata, Ra’s Lanuf, Tobruk og Zawiya. Í öðrum miðlum halda uppreisnarmenn og íbúar borganna því þó fram að mótmælendur séu enn við völd í þessum borgum. Fréttir af mannfalli í átökunum eru óljósar, en í gær töldu bráðaliðar á svæðinu að tveir hið minnsta hefðu látist og nokkrir tugir slasast.

Í gærmorgun var tilkynnt um mikla skothríð í höfuðborginni Trípolí, sem hefur verið höfuðvígi Gaddafis í átökunum meðan uppreisnarmenn hafa náð flestum borgum austanverðrar Líbíu á sitt vald. Talsmenn yfirvalda útskýrðu skothríðina þannig að um fagnaðarlæti hefði verið að ræða í tilefni þess að herinn hefði tekið völdin í ofannefndum borgum á ný. Að sögn BBC draga margir þeir sem staddir eru á svæðinu þá skýringu í efa.

Ekkert lát er á flóttamannastraumi frá Líbíu. Talið er að þrír slíkir frá Bangladess hafi látist og sextán annarra er saknað eftir að þeir stukku frá borði skips rétt í þann mund sem það lagðist að bryggju við grísku eyjuna Krít í gær. Þeir munu hafa óttast að vera sendir aftur til heimalands síns. Þá var átta breskum hermönnum, sem líbískir uppreisnarmenn handsömuðu í fyrrinótt, sleppt seinnipartinn í gær.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×