Erlent

Bandaríkjamenn útiloka ekki afskipti

Sprengjuárás skammt frá Ras Lanuf Uppreisnarmenn hlaupa í skjól þegar sprengjurnar springa.
nordicphotos/AFP
Sprengjuárás skammt frá Ras Lanuf Uppreisnarmenn hlaupa í skjól þegar sprengjurnar springa. nordicphotos/AFP
Bandaríkjastjórn og Atlantshafsbandalagið eru að skoða möguleika þess að grípa með hervaldi inn í atburðarásina í Líbíu, þar sem Múammar Gaddafí situr sem fastast en uppreisnarsveitir hafa náð stórum hluta landsins á sitt vald.

Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, sagði að meðal þess sem til greina kemur, sé að samþykkja flugbann yfir Líbíu. Bretar og Frakkar eru þegar byrjaðir að semja ályktun um flugbann, sem leggja á fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Hann sagði þó að ekki væri efst á listanum að senda bandarískan landher inn í Líbíu.

Rússar ítrekuðu í gær andstöðu sína við allar alþjóðlegar hernaðaraðgerðir í Líbíu, þar á meðal flugbann.

Bent hefur verið á að flugbann verði ekki framkvæmanlegt nema með því að eyðileggja fyrst loftvarnakerfi Líbíuhers, svo hægt verði að fljúga erlendum herþotum yfir landið til að framfylgja flugbanninu.

NATO hefur þegar ákveðið að efla eftirlitsflug yfir Líbíu, þannig að því verði hér eftir haldið úti allan sólarhringinn. Þá er NATO að kanna möguleika til að aðstoða við hjálparstörf.

Liðsmenn Gaddafís hafa undanfarna daga gert loftárásir á uppreisnarmenn nálægt borgum, sem barist er um. Bardagar hafa geisað, meðal annars í höfuðborginni Trípolí.

Í gær voru gerðar loftárásir á uppreisnarmenn skammt frá Ras Lanuf, olíuhöfn við Miðjarðarhafið sem uppreisnarmenn hafa haft á valdi sínu. Vegna loftárásanna hefur hægt á tilraunum uppreisnarmanna til að ráðast inn í höfuðborgina Trípolí, þar sem Gaddafí og liðsmenn hans hafa höfuðstöðvar.

Uppreisnarmenn segjast bíða eftir því að flugbann verði samþykkt en segjast ekki vilja innrás erlends landhers. Þeir segjast geta barist við hersveitir Gaddafís, jafnvel þótt þær séu vopnaðar skriðdrekum og flugskeytum, en árásir flughersins ráða þeir ekkert við.

Margt bendir til þess að langvinn borgarstyrjöld sé hafin í Líbíu, sem gæti staðið vikum eða jafnvel mánuðum saman. Gaddafí er sagður ráða yfir mjög öflugum flugher, en hefur þó ekki beitt honum af fullum krafti til þessa.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×