Erlent

Vill endurskoða skilmála lána

Enda Kenny Stjórnarsáttmáli er í höfn.
nordicphotos/AFP
Enda Kenny Stjórnarsáttmáli er í höfn. nordicphotos/AFP
„Nýja stjórnin mun reyna að endursemja um samkomulagið sem náðist við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,“ sagði Enda Kenny, leiðtogi Fine Gael, sem verður næsti forsætisráðherra Írlands.

Bæði Fine Gael og Verkamannaflokkurinn staðfestu í gær 64 blaðsíðna stjórnarsáttmála flokkanna tveggja, að loknum fimm daga stjórnarmyndunarviðræðum.

Í þingkosningunum 15. febrúar náðu flokkarnir tveir samtals 113 þingsætum á írska þinginu, þar sem þingmenn eru alls 166 talsins.

Fyrri stjórn féll eftir að efnahagslíf Írlands hrundi síðastliðið haust. Í nóvember náðu Írar samkomulagi við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um lán upp á samtals tíu þúsund milljarða króna til að standa straum af afborgunum stórra lána til ársins 2014.

Lánið er með 5,8 prósent vöxtum, en Kenny segist vonast til þess að geta samið um betri vaxtakjör. Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur sagt að lægri vextir kæmu Írum vel, en þó því aðeins að þeir herði enn frekar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×