Erlent

Aristide snúinn heim eftir sjö ára útlegð

Fjölmennur hópur stuðningsmanna beið á flugvellinum þegar Aristide kom heim úr útlegðinni.
fréttablaðið/AP
Fjölmennur hópur stuðningsmanna beið á flugvellinum þegar Aristide kom heim úr útlegðinni. fréttablaðið/AP
HaítiJean-Bertrand Aristide, sem árið 1991 varð fyrsti lýðræðislega kjörni forsetinn á Haítí, sneri aftur þangað frá Suður-Afríku í gær eftir sjö ára útlegð. Fjölmennur hópur stuðningsmanna hans tók fagnandi á móti honum á flugvellinum.

Á sunnudaginn verður haldin á Haítí seinni umferð forsetakosninga, þar sem landsmenn velja á milli Mirlande Manigat, fyrrverandi forsetafrúar landsins, og Michel Martelly, vinsæls skemmtikrafts og söngvara.

Aristide, sem er fyrrverandi prestur, var þrisvar sinnum forseti á Haítí, fyrst í tæpa átta mánuði þangað til herinn steypti honum af stóli í febrúar 1991. Herinn lét síðan undan þrýstingi frá Bandaríkjamönnum árið 1994 og þá komst Aristide aftur til valda. Hann sat út kjörtímabilið en bauð sig ekki fram í kosningum 1996. Hann var síðan aftur kosinn forseti árið 2001 og ríkti þangað til honum var aftur steypt af stóli, að þessu sinni í byltingu sem fyrrverandi hermenn tóku þátt í.

Honum tókst að gera ýmsar umbætur í landinu, einkum á sviði heilsugæslu og menntunar. Hann var hins vegar einnig sakaður um mannréttindabrot og spillingu.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×