Erlent

Mótmæli breiðast út

Lítil stúlka á meðal þeirra þúsunda sem mættu við jarðarfarir mótmælenda í Jemen í gær. Vaxandi þrýstingur er á forseta landsins að segja af sér. 
fréttablaðið/ap
Lítil stúlka á meðal þeirra þúsunda sem mættu við jarðarfarir mótmælenda í Jemen í gær. Vaxandi þrýstingur er á forseta landsins að segja af sér. fréttablaðið/ap
Forseti Jemens, Ali Abdullah Saleh, rak í gær ríkisstjórn landsins. Fjöldi embættismanna hafði þegar sagt af sér vegna andstöðu við morð á mótmælendum á föstudag, þar sem minnst 45 voru drepnir. Sendiherra Jemens hjá Sameinuðu þjóðunum, tveir ráðherrar, yfirmaður ríkisfjölmiðilsins og sendiherra landsins í Líbanon voru meðal þeirra sem sagt höfðu af sér.

Forsetinn tilkynnti um þetta eftir að tugir þúsunda mættu í jarðarfarir nokkurra hinna myrtu í gær. Ættbálkur hans kallaði í gær eftir afsögn hans og slóst þar í lið með trúarleiðtogum og mótmælendum.

Þá mótmæltu þúsundir manna í borginni Deraa í Sýrlandi í gær, þriðja daginn í röð. Einnig var mótmælt í öðrum borgum. Fimm mótmælendur hafa látist og öryggissveitir eru sagðar beita skotvopnum og táragasi. Mótmælendur kveiktu í byggingum í borginni og sögðu sjónarvottar að kveikt hefði verið í höfuðstöðvum Baath-flokksins, sem ræður ríkjum í landinu, sem og dómhúsi og tveimur útibúum símafyrirtækis sem skyldmenni forsetans eiga. Mótmælendur eru sagðir hafa völdin í miðborginni.

Vegum inn í borgina hefur verið lokað og þá hefur verið lokað fyrir flestar samskiptaleiðir, internetið og rafmagnið.

Í Barein halda mótmæli einnig áfram. Stjórnarandstæðingar óskuðu eftir hjálp Sameinuðu þjóðanna og Bandaríkjanna á stuttum mótmælafundi í höfuðborginni Manama í gær. Óskað var eftir því að SÞ stöðvi ofbeldi gegn mótmælendum og stýri viðræðum milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þá vilja stjórnarandstæðingar að erlent herlið undir stjórn Sádi-Araba fari úr landi. „Þeir eiga að fara heim. Það er engin þörf fyrir þá þar sem hér er pólitískt vandamál, ekki hernaðarlegt,“ sagði Jassim Hussein, fyrrverandi þingmaður.

Tugir Sádi-Araba mótmæltu fyrir utan innanríkisráðuneytið í Riyadh í gær og kröfðust þess að þúsundir fanga yrðu látnir lausir. Fólkið hefur verið í fangelsi svo árum skiptir án þess að réttað hafi verið yfir því. Lögreglumenn voru mun fleiri en mótmælendurnir á svæðinu, eða um 2000 talsins. Sjónarvottar segja að fjöldi fólks hafi verið handtekinn. Þetta voru þriðju mótmælin í landinu í mánuðinum, en mótmæli eru bönnuð í landinu.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×