Erlent

Finnar tefja afgreiðslu Evrópusambands

Mari Kiviniemi, forsætisráðherra Finnlands, ásamt Jose Socrates, fráfarandi forsætisráðherra Portúgals, á leiðtogafundinum í Brussel nú í vikunni.
nordicphotos/AFP
Mari Kiviniemi, forsætisráðherra Finnlands, ásamt Jose Socrates, fráfarandi forsætisráðherra Portúgals, á leiðtogafundinum í Brussel nú í vikunni. nordicphotos/AFP
Ein stærsta snurðan sem hljóp á þráð leiðtogafundar Evrópusambandsins stafar af tregðu finnsku stjórnarinnar til að fallast á aukna fjárhagslega ábyrgð Finnlands á hugsanlegum aðgerðum til bjargar evruríkjum í vanda.

Finnska stjórnin hefur þó fullan hug á að styðja aðgerðirnar. Vandinn er sá að þingkosningar verða í Finnlandi 17. apríl næstkomandi. Lítill flokkur finnskra þjóðernissinna, sem nefnist Sannir Finnar, hefur hins vegar vaxið mjög í skoðanakönnunum undanfarið og mælist nú með nærri tuttugu prósenta fylgi.

Sá flokkur er algerlega andvígur því að Finnar taki á sig aukna fjárhagslega ábyrgð í Evrópusamstarfi, og virðist sá málflutningur hans njóta vaxandi fylgis meðal kjósenda.

Finnska stjórnin er því talin hafa lagt ríka áherslu á það að ekkert yrði endanlega ákveðið um fjárhagslegan hlut Finna í aðgerðunum fyrr en að loknum þingkosningum heima fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×