Erlent

Fréttaskýring: Hvaða aðgerða ætlar ESB að grípa til?

Eldar loguðu í Brussel í gær, kveiktir af mótmælendum meðan leiðtogafundurinn stóð yfir. Slökkviliðsmenn voru mættir til vinnu en regnið virðist hafa hjálpað eitthvað til.fréttablaðið/AP
Eldar loguðu í Brussel í gær, kveiktir af mótmælendum meðan leiðtogafundurinn stóð yfir. Slökkviliðsmenn voru mættir til vinnu en regnið virðist hafa hjálpað eitthvað til.fréttablaðið/AP
Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu í gær heildarreglur um björgun evruríkja úr efnahagsvanda. Þeir segja nýju reglurnar marka tímamót, en stjórnarkreppa í Portúgal varpaði skugga á leiðtogafundinn í Brussel sem lauk í gær.

Leiðtogar Evróupsambandsins hafa samþykkt aðgerðir, sem eiga að tryggja stöðugleika á evrusvæðinu þrátt fyrir efnahagsvanda einstakra ríkja.

Aðgerðirnar fela annars vegar í sér nýjan neyðarsjóð með 500 milljörðum evra, eða ríflega 80.000 milljörðum króna, sem á til frambúðar að taka við af bráðabirgðasjóðnum, sem settur var á stofn á síðasta ári.

Hins vegar fela þær í sér strangari reglur um samstarf í efnahagsmálum til að tryggja meiri aga í ríkisfjármálum og örva jafnframt hagvöxt. Reglurnar ná til evruríkjanna sautján og sex annarra Evrópusambandsríkja, þar á meðal Danmerkur, sem ákvað að vera með. Fjögur ESB-ríki standa þó áfram utan við þetta samstarf, þar á meðal Bretland og Svíþjóð.

Leiðtogarnir sögðust ánægðir með niðurstöðuna, sem hefur kostað töluverð innbyrðis átök.

„Evrópa hefur gert nákvæmlega það sem gera þurfti,“ sagði Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti, hróðugur mjög. „Ég sé ekki hvað við hefðum getað gert meira á þessu stigi, sem þýðir þó ekki að innan fárra mánaða verðum við ekki með nýjar hugmyndir í handraðanum.“

Fjárhagsvandræði Portúgals og afsögn ríkisstjórnarinnar þar í landi nú í vikunni varpaði þó skugga á leiðtogafundinn í Brussel. Jose Socrates forsætisráðherra sagði af sér á miðvikudagskvöld eftir að þingið í Portúgal hafnaði sparnaðaraðgerðum, sem stjórnin hugðist fara út í til að styrkja efnahagslífið.

Í gær tók þingið í Portúgal ákvörðun um að efna til kosninga frekar en að mynda nýja ríkisstjórn undir forystu stjórnarandstöðunnar. Portúgal hefur þó ekki enn tekið ákvörðun um að leita til Evrópusambandsins um hjálp út úr efnahagsvandanum, sem orðinn er afar knýjandi.

Leiðtogar Evrópusambandsins segjast þó sannfærðir um að geta hjálpað Portúgal út úr vandanum, gerist þess þörf, með svipuðum hætti og þeir komu Írlandi og Grikklandi til bjargar.

„Ef Portúgal biður um hjálp verður að reikna með því að það gerist fljótlega, og að þá muni björgunarvarnirnar duga til,“ sagði Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, en hann er helsti talsmaður leiðtoga evruríkjanna.gudsteinn@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Finnar tefja afgreiðslu Evrópusambands

Ein stærsta snurðan sem hljóp á þráð leiðtogafundar Evrópusambandsins stafar af tregðu finnsku stjórnarinnar til að fallast á aukna fjárhagslega ábyrgð Finnlands á hugsanlegum aðgerðum til bjargar evruríkjum í vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×