Innlent

Trúnaður yfir endurfjármögnun láns

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
Meirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar vill ekki ræða um endurfjármögnun 4,3 milljarða króna láns sem var á gjalddaga 7. apríl síðastliðinn. Tillaga um að koma málinu á dagskrá var felld á bæjarstjórnarfundi í dymbilvikunni.

„Það er trúnaður yfir þessum samtölum við endurfjármögnunaraðilana. Það er því ekki hægt að taka þetta fyrir á opnum bæjarstjórnarfundi,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti Vinstri grænna í bæjarstjórn. Hún bendir á að eðlilegra væri að taka þetta fyrir á bæjarráðsfundi. „Þetta mál er í vinnslu. En það ríkir trúnaður yfir þessu.“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir meirihlutann ekki gefa nein svör um stöðu lánsins. „Í marga mánuði höfum við spurt en engin svör fengið.“ Rósa gagnrýnir einnig áform meirihlutans um að taka á leigu hluta af gamla sparisjóðshúsinu til að bæta aðstöðu stjórnsýslunnar. Hún segir brýnni mál liggja fyrir.

Guðrún Ágústa segir ódýrara að færa stjórnsýslueiningarnar en að halda þeim í gamla húsnæðinu. „Það kostar 50 milljónir að gera gamla húsnæðið upp þannig að það sé boðlegt fyrir þjónustuna.“- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×