Innlent

Kosning vígslubiskups ólögmæt

Kosning vígslubiskups í Skálholtsumdæmi var ólögmæt samkvæmt úrskurði yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar, sem gefinn var út í gærkvöldi.

Anna Guðrún Björnsdóttir, formaður kjörstjórnar þjóðkirkjunnar, segir að kjörstjórn muni funda um þessa niðurstöðu yfirkjörstjórnar í dag, en ljóst sé að kosninguna verði að endurtaka.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er þetta í fyrsta skipti sem endurtaka þarf kosningu vígslubiskups innan þjóðkirkjunnar.

Fimm voru í kjöri, og fékk sr. Sigrún Óskarsdóttir flest atkvæði, 40 talsins. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson varð annar með 35 atkvæði og sr. Agnes M. Sigurðardóttir lenti í þriðja sæti með 34 atkvæði.

Kjósa átti aftur milli tveggja efstu í maí þar sem enginn frambjóðenda fékk hreinan meirihluta í fyrstu umferð.

Sr. Agnes kærði kosninguna þar sem tvö atkvæði sem tekin voru gild voru póstlögð þremur dögum síðar en heimilt var. Þau hefðu getað ráðið úrslitum um hvort hún eða Jón Dalbú lentu í öðru sætinu, og þar með hvort þeirra komst í aðra umferð kosninganna. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×