Innlent

Sæmdarrétt þarf að skýra í lögunum

Verkið „Fallegasta bók í heimi“ hefur vakið upp líflega umræðu um rétt listamanna yfir verkum sínum. Fréttablaðið/Stefán
Verkið „Fallegasta bók í heimi“ hefur vakið upp líflega umræðu um rétt listamanna yfir verkum sínum. Fréttablaðið/Stefán
Hugtakið um sæmdarrétt listamanna þarf að skýra í lögum og jafnvel endurhugsa frá grunni. Það er mat tveggja ungra fræðimanna, sem voru frummælendur á vel sóttu málþingi Reykjavíkurakademíunnar í gær, sem bar yfirskriftina: „Er sæmdarréttur tímaskekkja“.

Málefnið er ofarlega á baugi í menningarheiminum vegna deilu um notkun listamanna á bókinni Flora Islandica við gerð listaverksins „Fallegasta bók í heimi“, sem var hluti af sýningunni Koddu.

Útgefandi bókarinnar var ósáttur við meðferð listamannanna á bókinni, sem var ötuð út í matarleifum, og töldu að brotið væri á sæmdarrétti höfunda hennar.

Egill Viðarsson, meistaranemi í þjóðfræði, sagði í fyrirlestri sínum að sæmdarréttur listamanna væri ekki órjúfanlegur hluti af höfundarrétti. Málið sé að hluta til af siðferðislegum og tilfinningalegum toga.

Hann bætti við í samtali við Fréttablaðið að í sæmdarrétti væri líka falinn tvískinnungur. „Þetta á stundum við og stundum ekki og er orðið eins konar valdatæki til að skelfa listamenn og heftir tjáningarfrelsi.“

Egill sagðist álíta að nú til dags afsöluðu listamenn hluta af siðferðislegum rétti sínum strax við útgáfu og erfitt væri að framfylgja lögum um sæmdarrétt þegar stafræn tækni stendur öllum til boða.

Teitur Skúlason sérhæfir sig í hugverkarétti og fjallaði um málið frá lagalegu sjónarmiði. Hann sagði í samtali við Fréttablaðið að afar erfitt væri að skilgreina brot á sæmdarrétti.

„Túlkun og beiting laganna um sæmdarrétt er óskýr og það þarf að bæta úr því. Skýring laganna og frekari lagasetning gæti hins vegar reynst erfið, vegna þess að fagurfræði og mat listamanna er afar óheppilegur grunnur að lagasetningu.“

Hannes Lárusson, einn sýningarstjóra Koddu, segist þeirrar skoðunar að sæmdarrétturinn í íslensku listaumhverfi sé í raun merkingarlaust hugtak.

„Menn vita ekki hvar mörkin liggja í þessu.“

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×