Innlent

Bændur skjóta fast á Matvælastofnun

Á fjalli Ímynd íslenskra landbúnaðarafurða byggir fyrst og síðast á hreinleika. Sauðfjárbændur telja stjórnsýslu MAST í Funamálinu hafa skaðað þá ímynd í augum útlendinga. fréttablaðið/vilhelm
Á fjalli Ímynd íslenskra landbúnaðarafurða byggir fyrst og síðast á hreinleika. Sauðfjárbændur telja stjórnsýslu MAST í Funamálinu hafa skaðað þá ímynd í augum útlendinga. fréttablaðið/vilhelm
Landssamtök sauðfjárbænda (LS) fordæma stjórnsýslu Matvælastofnunar í fjölmörgum málum og ekki síst í Funamálinu. Það er mat LS að enn sé óvíst hversu miklum skaða stofnunin hafi „valdið orðspori íslenskra landbúnaðarvara erlendis með ónákvæmri og illa tímasettri upplýsingagjöf til erlendra aðila."

Matvælastofnun vísar gagnrýni LS á bug og furðar sig á því af hverju gagnrýni bænda snýr að eftirlitsstofnun en ekki þeim sem varð þess valdandi að díoxín barst út í náttúruna, eða sorpbrennslunni Funa í Skutulsfirði.

LS setti þessa gagnrýni sína fram í samþykktum á nýafstöðnum aðalfundi. Í samþykkt um Funamálið [díoxínmálið] er stjórnsýsla Matvælastofnunar fordæmd eins og áður segir og þess er krafist af Alþingi að starfshættir og stjórnsýsla MAST verði tekin til athugunar „af til þess bærum aðilum enda sé óvíst hversu miklum skaða upplýsingagjöf stofnunarinnar hefur valdið."

Matvælastofnun hefur í ítarlegri greinargerð svarað ávirðingum LS og telur að vegið sé að stofnuninni af full mikilli hörku og ekki „í samræmi við það sem rétt er".

Sindri Sigurgeirsson, formaður LS, sagði í viðtali í Bændablaðinu að tilkynning frá MAST hafi verið fréttaefni í fimm heimsálfum og þar hefði ekki komið fram nauðsynlegar upplýsingar; til hversu lítils svæðis mengunin náði og aðeins náð til brotabrots af framleiðslunni.

Til þessara orða er vitnað í greinargerð MAST en sagt að brugðist var við fyrirspurnum systurstofnana tveimur dögum eftir að fyrstu fréttir birtust um innköllun díoxínmengaðs kjöts. Var fréttatilkynning send út, meðal annars í gegnum viðvörunarkerfi Evrópu (RASFF). Þar hafi nákvæmlega verið tekið fram hvaða magn var um að ræða og hvert það fór til markaðssetningar. Þá segir að í tilkynningu frá stjórnvöldum hafi komið fram að innköllunin væri gerð í varúðarskyni.

„Við vonum að tekist hafi að róa kaupendur okkar. Þetta var áhyggjuefni þar sem 40 prósent af okkar afurðum fara á erlenda markaði," segir Sindri. „Hins vegar vil ég hrósa vinnubrögðum Matvælastofnunar sem brást tafarlaust við okkar samþykktum og kom með athugasemdir sínar."

Sindri merkir breytingu innan eftirlitsstofnana eftir að Funamálið kom upp, enda sé það fyrsta mál þessarar gerðar hérlendis. „Við kunnum einfaldlega ekki á svona lagað en erum að læra," segir Sindri.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×