Innlent

Dregur ummælin ekki til baka

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, ætlar ekki að verða við boði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að draga til baka ummæli um mútuþægni hins síðarnefnda. Guðlaugur gaf honum frest til þess til mánaðamóta, ellegar mundi hann stefna honum fyrir meiðyrði.

Björn Valur svaraði lögmanni Guðlaugs í gær. „Mér þykir miður að hafa valdið skjólstæðingi þínum hugarangri, en ítreka undrun mína á því að hann hafi ekki gert athugasemdir vegna sambærilegra ummæla, sem eru sannanlega sett fram miklu fyrr en mín orð féllu," skrifar Björn Valur meðal annars.

Vísar hann sérstaklega til orða flokkssystkina sinna, Svandísar Svavarsdóttur og Ögmundar Jónassonar, um REI-málið í því samhengi. Hann hafi því haft tilefni til að álykta að Guðlaugur væri ekki viðkvæmur fyrir því að vera vændur um mútuþægni. Auk þess sé orðið mútur nú til dags notað í víðtækri merkingu.



Guðlaugur vildi ekki tjá sig um svarbréfið í gær, þar sem hann hafði aðeins heyrt af efni þess en ekki lesið það. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×