Innlent

Fyrstu dýrin á land

Hrefnuveiðimenn hafa veitt fyrstu hrefnur sumarsins og var þeim landað í Hafnarfjarðarhöfn á laugardagskvöld. Vinnsla kjötsins er komin á fullt og stefnt er að því að kjötið verði komið í verslanir í dag. Dýrin voru frekar mögur, en kjötið fallegt að sjá.

Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri hrefnuveiðimanna, segir að Hrafnreyður KÓ 100 hafi haldið til veiða fyrir viku í Faxaflóa í leiðindaveðri. Þá sáust nokkrar hrefnur sem hurfu fljótt í ölduna. Veðrið var öllu betra á laugardaginn sem skilaði tveimur dýrum.

Hrefnuveiðimenn mega veiða 216 dýr á vertíðinni, auk fimmtungs af óveiddum dýrum síðustu vertíðar. „Við munum ekki taka allan þennan kvóta, í fyrra veiddust sextíu dýr og við vorum með fimmtíu af þeim,“ segir Gunnar sem segir að kjötið frá síðustu vertíð hafi klárast nýlega.

Sagt var frá því í fréttum um helgina að hrefnuveiðimenn hafi veitt dýr innan svæðis þar sem hvalaskoðun er aðeins leyfð. Þetta er byggt á misskilningi segir Gunnar en hins vegar hafi verkun hrefnu staðið yfir. Við vorum á línunni við að verka dýrið, sem var athugunarleysi sem ekki verður endurtekið. Hins vegar var dýrið veitt fyrir utan línu.

Það kom líka tilkynning um að við höfum verið staðnir að meintum ólöglegum veiðum, sem er rangt. Hins vegar hafði Gæslan ekki fengið upplýsingar um veiðileyfið okkar frá Fiskistofu, sem var hins vegar um borð í skipinu,“ segir Gunnar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×